Aðalfundur Isavia var haldinn í dag. Þar kom fram að tekjur félagsins námu 22.079 milljónum króna og jukust um 2.269 milljónir króna frá árinu 2013, eða um 11,5% á milli ára. Rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði nam 3.328 milljónum króna og jókst um 511 milljónir milli ára. Í tilkynningu um fundinn segir að hækkun á rekstrarafkomu er að mestu tilkomin vegna aukinnar áherslu félagsins á tekjumyndun sem skilaði sér strax á síðasta ári, og það er gert ráð fyrir að sú þróun muni halda áfram á komandi árum.

Heildarafkoma ársins 2014 var jákvæð um 2.197 milljónir króna sem er um 1.020 milljónum króna lakari afkoma en árið 2013. Þessi munur stafar af gengisáhrifum en gengistap, aðallega vegna erlendra langtímalána nam um 164 milljónum króna árið 2014 á meðan félagið var með gengishagnað upp á um 1.573 milljónir árið 2013. Afkoma félagsins er betri en áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir.

Heildareignir samstæðunnar námu 40.849 milljónum króna í árslok og þar af eru 31.402 milljónir tilkomnar vegna varanlegra rekstrarfjármuna og óefnislegra eigna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 41,8% í árslok samanborðið við 43,1% árið á undan. Hafa verður í huga að fjárhæð langtímalána um síðustu áramót er hærri um sem nemur 3,7 milljörðum króna vegna ádráttar á hluta af tæplega 5 milljarða króna langtímaláni sem félagið tryggði sér í lok síðasta árs hjá Norræna Fjárfestingabankanum, en sú tilhögun hefur áhrif til lækkunar á eiginfjárhlutfallinu. Það lán verður nýtt til afkastaaukandi fjárfestinga á Keflavíkurflugvelli á þessu ári. Eiginfjárhlutfallið hefur hækkað umtalsvert frá stofnun félagsins árið 2010, þegar það var 24,6%. Rekstur samstæðunnar skilaði áfram góðu sjóðstreymi, en handbært fé frá rekstri árið 2014 nam 4.628 milljónum króna sem er aukning um 596 milljónir frá fyrra ári.

Ítarlegt viðtal við Björn Óla Hauksson forstjóra Isavia er að finna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-eintak af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .