*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 2. apríl 2020 15:46

Afkoma Isavia dróst saman um 72%

Isavia skilaði 1,2 milljarða afgangi á síðasta ári, eftir 8% samdrátt í tekjum milli ára. Farþegum fækkaði um ríflega fjórðung.

Ritstjórn
Sveinbjörn Indriðason er forstjóri Isavia, sem rekur flugvelli landsins.

Á síðasta ári, á sama tíma og farþegum um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 26% milli ára, skilaði Isavia tæplega 71,9% minni afgangi en árið áður samhliða tekjusamdrátti sem nam 8%.

Þannig lækkuðu tekjur opinbera hlutafélagsins, sem rekur flugvelli landsins, um 3,3 milljarða milli ára, er þær fóru úr 41,8 milljörðum í tæplega 38,5 milljarða króna. Þar af nam niðurfærsla á viðskiptakröfum vegna falls Wow air 1,2 milljarði króna.

Einnig fækkaði flugvélum sem fóru um íslenska úthafsflugstjórnarsvæðið um 7,5%, og innanlandsfarþegum um 11,4%.

Handbært fé félagsins nam 9,2 milljörðum króna í árslok. Eigið fé félagsins jókst um 3,4% á árinu, í 36,5 milljarða, skuldirnar drógust hins vegar saman um tæpt prósent, og námu þær tæplega 44,2 milljörðum í árslok. Þar með jukust eignirnar um rétt rúmlega 1% á árinu, og námu þær rúmlega 80,6 milljörðum króna og þar með hækkaði eiginfjárhlutfallið úr 44,2% í 45,2%.

Á aðalfundi félagsins voru eftirtaldir kosnir í stjórn félagsins:

Aðalstjórn:

  • Orri Hauksson
  • Eva Pandora Baldursdóttir
  • Matthías Páll Imsland
  • Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir
  • Valdimar Halldórsson.

Varastjórn:

  • Sigrún Traustadóttir
  • Hreiðar Eiríksson
  • Ingveldur Sæmundsdóttir
  • Óskar Þórmundsson
  • Þorbjörg Eva Erlendsdóttir.

Sveinbjörn Indriðason forstjóri Isavia segir síðasta ár hafa fyrir margra hluta sakir viðburðarríkt. „Wow air féll á fyrri hluta ársins og stuttu síðar voru Boeing 737 MAX vélar Icelandair kyrrsettar. Allt hafði þetta mikil áhrif á fjölda farþega og þannig á rekstur samstæðu Isavia,“ segir Sveinbjörn.

„Nú stöndum við frammi fyrir heimsfaraldri af völdum Covid-19-veikinnar, og það er gríðarmikil óvissa með framhaldið. Það eina sem við vitum er að áhrifin verða mikil. Fjárhagsleg staða félagsins er sterk en það er ljóst að við, eins og önnur fyrirtæki, þurfum að bretta upp ermarnar til að komast heil í gegnum þessa erfiðleika.“