Afkoma Isavia , sem annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi og stýrir flugumferð um íslenska flugstjórnarsvæðið, var umfram væntar á fyrri hluta árs. Rekstrartekjur samstæðu Isavia og dótturfélaganna Fríhafnarinnar og Tern Systems námu 8.920 milljónum króna, sem er 8% hækkun frá sama tíma í fyrra. Stærstur hluti aukinna tekna skrifast á fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll en þeir voru 18,4% fleiri á fyrstu sex mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri Isavaia að rekstrarhagnaður nam 812 milljónum króna sem er 9,1% af tekjum samstæðunnar. Heildarafkoma félagsins nam 1.367 milljónum króna og var þar tekjufærður gengishagnaður upp á 1.089 milljónir króna. Heildarafkoma félagsins fyrir sama tímabil í fyrra nam 88 milljónum króna. Inni í því var gjaldfært gengistap upp á 208 milljónir króna.

Heildareignir Isavia námu 33,9 milljörðum króna í lok júní samanborið við 33,4 milljarða í lok síðasta árs. Fjárfestingar félagsins á tímabilinu námu 1,2 milljörðum króna. Það er um helmingurinn af áætluðum fjárfestingum á árinu öllu. Gert er ráð fyrir að þær muni nema 2,3 milljörðum króna. Helstu fjárfestingar eru endurbætur á Flugstöð Leifs Eiríkssonar, stækkun flughlaðs á Keflavíkurflugvelli, endurnýjun á veðurupplýsingarkerfum og  uppsetning á nýju staðsetningarkerfi til notkunar í  flugumferðarstjórn.