Greiningardeildir Kaupþings banka og Landsbanka segja að 19,1 milljarðs króna hagnaður Íslandsbanka hafi verið undir væntingum og skýrist af slakri afkomu á fjórða ársfjórðungi.

Greiningardeild Landsbankans segir orðrétt í Vegvísi: "Hagnaður Íslandsbanka á fjórða ársfjórðungi nam rúmum 3,7 mö.kr. sem samdráttur um rúman milljarð frá þriðja ársfjórðungi. Afkoma bankans á fjórða ársfjórðungi er talsvert undir spá okkar, en hún hljóðaði upp á 7,2 ma.kr. hagnað á fjórða ársfjórðungi."

Kaupþing banki segir í 1/2 5 fréttum að afkoman sé töluvert undir væntingum Greiningardeildarinnar: "Frávik frá okkar spá liggur nánast alfarið í slakri afkomu af fjárfestingastarfsemi á fjórðungnum en ólíkt því sem við áttum von á skilaði bankinn skilaði rúmlega 600 ma.kr. gengistapi á tímabilinu. Skýrir það 2,5 ma.kr. frávik spár okkar um aðrar rekstrartekjur bankans á fjórðungnum. Teljum við þessa niðurstöðu töluverð vonbrigði, og þá sérstaklega í ljósi hagfelldrar þróunar á íslenska hlutabréfamarkaðinum á tímabilinu (hækkaði um 19,5% á fjórðungnum)."

Greiningardeild Kaupþings segir síðan orðrétt: "Fram hefur komið á afkomufundum Íslandsbanka að stór hluti hlutabréfaeignar bankans sé í erlendum félögum. Hverfandi upplýsingar hafa hins vegar komið fram í hvaða félögum hann hefur fjárfest eða hvernig hlutabréfasafnið skiptist milli landa. Afkomuspá okkar gerði ráð fyrir því að umtalsverður hluti af 14 ma.kr. hlutabréfasafni bankans væri í Noregi og tókum við því mið af einungis um 1% hækkunar norska markaðarins á fjórðungnum."