*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Innlent 31. ágúst 2018 10:21

Afkoma Íslandspósts versnar um 260 milljónir

Samdráttur í bréfamagni er langt umfram spár. Tekjur vegna bréfa innan einkaréttar lækka um 201 milljón króna.

Ritstjórn
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts.
Haraldur Guðjónsson

Heildartekjur Íslandspósts lækka um 64 milljónir króna á milli ára eða um 2%. Þetta kemur fram í hálfsársuppjöri fyrirtækisins. Samdráttur í bréfamagni er langt umfram spár. Tekjur vegna bréfa innan einkaréttar lækka um 201 milljón króna Aðar tekjur aukast um 132 milljónir króna Rekstrarkostnaður eykst um 285 milljónir króna á milli ára eða um 7%. EBIDTA lækkar um 349 milljónir króna. 

Bréfasendingum hefur fækkað mikið hér á landi á síðustu árum. Meiri en helmingi færri bréf voru send árið 2017 en 2007 og bréfum fækkar enn mikið. Þegar fyrstu sex mánuðir ársins 2018 eru bornir saman við fyrstu sex mánuði ársins 2017 kemur í ljós að 12% færri bréf voru borin út hér á landi milli ára og er það mun meiri samdráttur en spár gerðu ráð fyrir. Ef fram fer sem horfir verður metfækkun bréfa í ár. Það leiðir til þess að tekjur Íslandspósts munu dragast saman um hátt í 400 milljónir kr. Á sama tíma eykst kostnaður við bréfadreifingu vegna þess að fjölgun íbúða og fyrirtækja leiðir til þess að dreifikerfi Íslandspósts stækkar.

Árið 2018 hefur verið Íslandspósti um margt erfitt og eins og áður sagði þá er samdráttur í bréfamagni langt umfram spár. Fækkun bréfa þýðir minni tekjur sem hefur veruleg áhrif á rekstur félagsins. Íslandspóstur sinnir svokallaðri alþjónustuskyldu fyrir ríkið og hefur á móti einkarétt ríkisins á að dreifa árituðum bréfum allt að 50 grömmum. Tekjum af einkaréttarbréfunum er ætlað að greiða fyrir þá alþjónustu sem ekki stendur undir sér, s.s. dreifingu í sveitum landsins. Nú er svo komið að tekjur af einkarétti duga ekki til þar sem þær hafa dregist mikið saman með minnkandi magni. Önnur þjónusta sem fyrirtækið veitir í samkeppni hefur því verið að greiða niður hluta alþjónustunnar. Það dugar hinsvegar ekki lengur til og því hefur saxast á eigið fé Íslandspósts sem gengur ekki til lengdar.

Með minnkandi bréfamagni á undanförnum árum hefur óhjákvæmilega þurft að endurskoða þjónustuna og hafa hagræðingaraðgerðir á undanförnum árum leitt til þess að kostnaður nú er tæpum tveimur milljörðum króna lægri en raun var fyrir áratug.  Nú síðast var dreifingardögum í þéttbýli fækkað 1. febrúar sl. Vonir stóðu til að það hagræði sem af hlytist gæti leitt til lækkunar á burðargjöldum en því miður hefur samdráttur í bréfamagni orðið til þess að hækka verður verðskrá bréfa til að mæta tekjutapinu, komi annað ekki til. Þær hækkanir hefðu hins vegar þurft að vera mun meiri hefði kostnaðarlækkun vegna fækkunar dreifingardaga ekki komið til.

Ekki eru allar pakkasendingar arðbærar

Undir alþjónustuskyldu ríkisins sem Íslandspóstur sinnir fellur m.a. móttaka, meðhöndlun og dreifing á sendingum frá útlöndum. Mikil aukning hefur verið í netverslun frá útlöndum á undanförnum árum og þá sérstaklega frá Kína. Vegna óhagstæðra alþjóðasamninga þar sem Kína er flokkað sem þróunarríki fær Íslandspóstur mjög lágt gjald greitt fyrir þessar sendingar og standa þær greiðslur einungis undir litlum hluta þess kostnaðar sem fellur til við að meðhöndla þær. Mikið tap af þessum erlendu sendingum, sem Íslandi ber að sinna samkvæmt alþjóðasamningum, er stór hluti vandans við fjármögnun alþjónustunnar.

Ófjármagnaður kostnaður við alþjónustu nam um 600 milljónum kr. á síðastliðnu ári og er áætlað að hann nemi rúmum 700 milljónum kr. á árinu 2018. Með áframhaldandi fækkun bréfa benda spár póstfyrirtækja í nágrannalöndum til þess að ófjármagnaður kostnaður við alþjónustu muni aukast umtalsvert á næstu árum miðað við óbreyttar þjónustukröfur í pósttilskipun Evrópusambandsins og fyrirkomulag burðargjalda samkvæmt alþjóðasamningum. Stjórnendur Íslandspósts vinna nú að því í samvinnu við stjórnvöld að leita leiða til að tryggja fjármögnun alþjónustunnar og laga hana að breyttum forsendum. Nauðsynlegt er að niðurstaða liggi fyrir í þeim efnum á næstu mánuðum.

Stikkorð: Íslandspóstur Uppgjör
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is