Hagnaður KB banka nam 4.055 m.kr. á fjórða ársfjórðungi sem er verulega yfir væntingum Greiningardeildar Landsbankans. Mikilvægustu frávik frá okkar spá eru mun meiri gengishagnaður en jafnframt voru hreinar þóknunartekjur verulega umfram okkar væntingar. "Þetta veldur því að eigið fé í árslok er hærra en við gerðum ráð fyrir og hefur áhrif til hækkunar á verðmati. Frávik í afkomuspá eru þess eðlis að þau gefa ekki tilefni til endurskoðunar á almennum rekstrarforsendum sem lagðar voru til grundvallar verðmati sem birt var í nóvember," segir greiningardeild Landsbankans.

"Uppfært verðmat okkar á KB banka hljóðar upp á gengið 504 og hefur þá verið tekið tillit til uppgjörs 4. ársfjórðungs. Meðfylgjandi er álit okkar á uppgjörinu en mælt er með yfirvogun á bréfum KB banka í vel dreifðu eignasafni," segir greiningardeild.