Hagnaður Kögunar var 118 m.kr. á öðrum ársfjórðungi sem er nokkru lakari afkoma en greiningardeildir bankanna gerðu ráð fyrir. Spá Íslandsbanka var 140 milljónir. Er það vélbúnaðarhlutinn sem dregur afkomuna niður en þar var EBITDA á tímabilinu 68 m.kr. sem er einungis 2,3% af veltu. Er það rekstur Kerfi AB í Svíþjóð sem veldur vandræðum en velta þar hefur dregist saman. Bið verður á að aðgerðir til að auka arðsemi skili árangri en þó vænta stjórnendur þess að seinni árshelmingur verði betri en sá fyrri.

Á hinn bóginn hefur rekstur Opinna Kerfa ehf. á Íslandi gengið vel. Hugbúnaðarhlutinn gengur mjög vel og er að skila hærri framlegð en sést hefur miðað við núverandi skipulag. Á öðrum ársfjórðungi var EBITDA þess hluta 291 m.kr. sem er 19,9% af rekstrartekjum. Er það vel umfram 15% markmiðið sem sett hefur verið fyrir þann rekstur.

Í lok júní var rekstur vélbúnaðarhlutans færður í sér eignarhaldsfélag og hefur Kögun selt 20% hluta þess frá sér. Kaupandi var Iða fjárfestingar ehf sem er í eigu Straums og KEA. Má búast við að hlutdeild Kögunar í þeim rekstri minnki áfram og að áherslan verði á að auka við starfsemi hugbúnaðarhlutans með ytri vexti segir í Morgunkorni Íslandsbanka.