Afgangur varð á rekstri Kópavogsbæjar upp á 652 milljonir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er næstum 600 milljónum krónum umfram væntingar en áætlanir gerðu ráð fyrir 63 milljóna króna rekstrarafgangi. Fram kemur í tilkynningu frá Kópavogsbæ að munurinn skýrist einkum af rúmlega 400 milljóna króna gengishagnaði og um 105 milljóna króna tekjum vegna úthlutunar á byggingarrétti á tímabilinu.

Uppgjör bæjarins var kynnt á fundi bæjarráðs Kópavogs í morgun.

Skuldir yfir lögbundnu hlutfalli

Fram kemur í uppgjörinu að lögð hafi verið áhersla á að lækka skuldir bæjarins til að lækka vaxtagjöld og auka svigrúm í rekstri. Skuldirnar hafa lækkað um rúma tvo milljarða króna frá áramótum og skuldahlutfall bæjarins, þ.e. skuldir á móti tekjum, hefur lækkað úr 206% um áramótin niður í 197% nú. Lögbundið skuldahlutfall er 150%. Til samanburðar fór skuldahlutfall bæjarins hæst í 242% þegar verst lét árið 2010.

Í uppgjöri Kópavogs í vor kom fram að stefnt sé að því að hlutfallið verði komið undir 150% fyrir árið 2018. Aðlögunartíminn til að ná því er til ársins 2023.

Í júlí hækkaði lánshæfismatsfyrirtækið Reitun lánshæfismat Kópavogsbæjar úr B í B+ með stöðugum horfum. Í rökstuðningi segir að Kópavogsbær hafi unnið vel úr afleiðingum efnahagshrunsins, rekstrarframlegð batnað verulega og sé veltufé frá rekstri sterkt.