Afkoma kúabænda varð heldur lakari á árinu 2003 samanborið við árið 2002. Hagnaður fyrir laun eiganda sem var tæplega 2 milljónir króna á árinu 2002 lækkaði í tæplega 1,9 milljónir króna árið 2003 eða um 5%. Til skýringar er einkum að meðalafurðir dragast saman sem nemur 3.000 lítrum innlagðrar mjólkur á bú.

Þetta kemur fram í árlegri skýrsla Hagþjónustu landbúnaðarins um uppgjör búreikninga í hefðbundnum greinum landbúnaðar fyrir árið 2003. Skýrslan er nú komin út. Í heild bárust bókhaldsgögn frá 382 búum víðsvegar að af landinu en til uppgjörs nýttust gögn frá 343 búum.

Í úrtakinu eru alls 193 kúabú. Búin eru mjög sérhæfð og eru 95% af búgreinatekjum af nautgripaafurðum, þar af 88% af innleggi mjólkur. Mjólkurinnlegg þeirra á árinu 2003 var rúmur fjórðungur (26%) af heildarinnvigtun mjólkur á landinu. Greiðslumark í mjólk var um 143.400 lítrar á bú að meðaltali og innvegnir mjólkurlítrar í afurðastöð um 146.000 (1,8% umfram greiðslumark). Meðalafurðir á mjólkurkú miðað við innlegg í afurðastöð 2003 voru 4.425,4 lítrar mjólkur samanborið við 4.514,1 lítra árið á undan; sem er 2% samdráttur. Meðalaldur kúabænda er 47 ár og eru að meðaltali 2 ársverk innt af hendi á búunum.