Hagnaður Skakkaturns ehf., umboðsaðila Apple á Íslandi, lækkaði um 21,6% á síðasta ári, úr tæpum 339 milljónum króna árið 2018 í 265,5 milljónir. Félagið velti tæpum fimm milljörðum króna á árinu, sem er lækkun um 13,5% frá fyrra ári. Rekstrarkostnaður lækkaði um 12,3% og nam 4,6 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður félagsins lækkaði um 28,1%.

Launakostnaður nam 277 milljónum króna og jókst um 3,7% milli ára en meðalfjöldi starfsmanna var sambærilegur milli ára, 29 ársverk.

Eiginfjárhlutfall félagsins var 49% við árslok og lækkaði um rúmt prósent milli ára. Eigið fé nam 746,3 milljónum króna og lækkaði um 4,4% milli ára. Skuldir voru nær óbreyttar frá fyrra ári og námu um 774,6 milljónum króna. Eignir félagsins voru sambærilegar milli ára og námu 1,5 milljörðum króna.

Stjórn félagsins lagði til að greiddur yrði allt að 130 milljóna króna arður til hluthafa, en á árinu var greiddur út 300 milljóna króna arður vegna ársins 2018. Skakkiturn er í eigu félags Guðna Rafns Eiríkssonar, A80 ehf., en Guðni Rafn er jafnframt framkvæmdastjóri Skakkaturns.