Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) lággjaldaflugfélagins Iceland Express mun verða í kringum 600 milljónir króna á árinu 2006, samanborið við 300 milljónir króna í fyrra, sagði Birgir Jónsson, framkvæmdastjóri félagins, í samtali við Viðskiptablaðið. Tap af rekstri félagins nam um 300 milljónum árið 2004.

Birgir sagði reksturinn hafa gengið framar vonum og að áætlað væri að fjölga enn frekar áfangstöðum, en þegar hefur verið ákveðið að bæta við flugleiðum til Bergen og Parísar.

"Samkeppnin er auðvitað gífurlega hörð, en það er bara eins og það á að vera," sagði Birgir. Flugfélagið flytur nú um 300 þúsund farþega á ári og leigir þrjár vélar af svissneska fyrirtækinu Hello AG, en það stendur til að bæta við fjórðu vélinni, að sögn Birgis.

Iceland Express er í eigu eignarhaldsfélagsins Fons, sem stýrt er af Pálma Haraldssyni og Jóhannesi Kristinssyni, og var áætlað að selja félagið í byrjun árs. Lagt upp með að verðmiðinn yrði í kringum þrír til fjórir milljarðar, sem sumum sérfræðingum þótt of mikið fyrir félagið. Hins vegar segja sérfræðingar nú að félagið sé komið til að vera á íslenskum flugmarkaði og að þær verðhugmyndir sem viðraðar voru í fyrra hafi verið raunhæfar.

Fons réð Kaupþing banka til þess að finna kaupendur að Iceland Express þegar ljóst varð að samningar hefðu náðst við FL Group um að kaupa Sterling-flugsamstæðuna fyrir 15 milljarða króna og að greitt yrði að hluta til með bréfum í FL Group, samkeppnisaðila Iceland Express.

Ákveðið var að hætta við söluna á félaginu eftir að ákveðið var að Fons myndi ekki fá greitt með bréfum í FL Group. Fons sameinaði norræna lággjaldaflugfélagið Sterling og danska félagið Mærsk Air á síðasta ári og samþykkti síðan að selja FL Group, sem fjármagnaði kaupin að hluta til með 44 milljarða króna hlutabréfaútboði.