Hagnaður Landsbankans á fjórða ársfjórðungi síðasta árs var í samræmi við væntingar greiningardeildar Íslandsbanka.

Hagnaður til hluthafa bankans nam 8,7 milljörðum króna en greiningardeildin spáði 8,5 milljörðum.

Heildareignir bankans námu 1.405 milljörðum króna í árslok og eigið fé án hlutdeildar minnihluta nam 110 milljónum króna, segir greiningardeildin.

Arðsemi eigin fjár nam 61,8% fyrir skatta og virðisrýrnun en 45,2% eftir skatta. Markmið bankans er að ná 15-17% arðsemi eign fjár eftir skatta.

Hreinar rekstrartekjur námu 19,3 milljörðum króna og voru umfram væntingar greiningardeildar Íslandsbanka en spáskekkjan skýrist af meiri gengismun en spáð var.

Rekstrarkostnaður nam 7 milljörðum og jókst um 42% frá þriðja ársfjórðungi. Það var talsvert umfram væntingar greiningardeildarinnar. Hagnaður ársins nam 25 milljörðum og jókst um 97% milli áranna 2004 og 2005.

Hreinar vaxtatekjur námu 7,3 milljörðum og var umfram spá greiningardeildarinnar.

Hreinar þóknunartekjur voru undir væntingum og námu 4,8 milljörðum króna. Spáskekkjan skýrist að líkindum af ofmati á áhrifum Kepler á fjórðungnum, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Afkomuspá greiningardeildarinnar frá því í janúar kvað á um 29,5 milljarða króna hagnað á árinu 2006 sem reiknast sem 26,7% arðsemi eigin fjár eftir skatta.