Tekjur af kjarnastarfsemi Marels námu 111,9 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi, sem er 4,4% hækkun miðað við síðasta ársfjórðung. Í fyrra var veltan á þriðja ársfjórðungi hins vegar 143,1 milljónir evra. EBITDA af kjarnastarfsemi var 18,6 milljónir evra, sem er 16,6% af veltu en var 14,6% of veltu á síðasta ári.

Rekstrarhagnaður (EBIT) af kjarnastarfsemi var 13,1 milljónir evra, sem er 11,7% af veltu og er það langt umfram væntingar á markaði ef miðað er við spá IFS Greiningar en þeir spáðu 8,3 milljónum evra EBIT af 112 milljóna evra veltu, eða 7,4%.

Hlutafjáreign erlendra aðila jókst í 16% eftir kaup Columbia Wanger á 5,2% eignarhlut í Marel. Heildartekjur á þriðja ársfjórðungi 2009 námu 133,7 milljónum evra (Q3 2008: 170,6 milljónir evra). Það er hald forráðamanna félagsins að það sér vel í stakk búið til að skila þeirri afkomu á næsta ári sem hefur verið boðuð, þ.e.a.s. 10-12% EBIT.

Heildar EBITDA var 18,0 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi 2009 (Q3 2008: 20,8 milljónir evra) og heildar rekstrarhagnaður (EBIT) var 11,8 milljónir evra (Q3 2008: 14,5 milljónir evra). Hagnaður eftir skatta var 0,9 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi 2009 (Q3 2008: 4,5 milljónir evra). Nettó vaxtaberandi skuldir námu 348,0 milljónum evra. Brúarlán vegna starfsemi Food and Dairy var framlengt um tvö ár til október 2011.

„Við erum ánægð með rekstrarafkomu ársfjórðungsins. Við erum áfram mjög meðvituð um kostnaðarhliðina í rekstrinum í ljósi þess hve batinn er hægur. Það er stöðugleiki í fjölda pantana af kjarnastarfsemi á þriðja ársfjórðungi eftir vöxt á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins. Kostnaðaraðhaldið hefur gert okkur kleift að auka framlegð og rekstrarhagnað. Eftir þær aðhaldsaðgerðir sem við höfum ráðist í á síðastliðnu ári er kostnaðargrunnur fyrirtækisins nú töluvert lægri en hann var áður," sagði Theo Hoen, forstjóri í tilkynningu.