„Með hliðsjón af drögum að uppgjöri Marel fyrir fyrsta ársfjórðung 2015 er það mat stjórnenda félagsins að afkoma þess sé umfram væntingar. Byggist þetta einkum á auknum tekjum, hagstæðri tekjudreifingu og aukinni skilvirkni í rekstri félagsins.“ Þetta segir í nýbirtri tilkynningu frá Marel til Kauphallarinnar .

Í tilkynningunni segir að mótteknar pantanir í fjórðungnum séu áætlaðar 212 milljónir evra. Tekjur fjórðungsins verði um 209 milljónir evra, með leiðréttan rekstrarhagnað yfir 11% af tekjum og rekstrarhagnað tæplega 8% af tekjum. Hagnaður eftir skatt í fyrsta ársfjórðungi er áætlaður rúmlega 12 milljónir evra.

Þá segir einnig að sterk EBITDA og sjóðstreymi muni hafa þau áhrif að skuldsetningarhlutfall félagsins lækki í 1,5 í lok fyrsta ársfjórðungs, samanborið við 2,1 í lok fjórða ársfjórðungs 2014.

Uppgjör félagsins verður birt eftir lokun markaða þann 29. apríl næstkomandi.