Afkoma bandarísa hugbúnaðarrisans Microsoft dróst talsvert saman á milli ára og var verri en markaðsaðilar höfðu reiknað með. Hagnaðurinn nam 4,47 milljörðum dala á þriðja ársfjórðungi sem er rúmum milljarði minna en á sama tíma í fyrra. Samdrátturinn nam 22% á milli ára. tekjurnar námu 16 milljörðum dala á tímabilinu, sem er 8% minna en á þriðja ársfjórðungi í fyrra.

Eins og erlendir fjölmiðlar greina frá uppgjörinu munar um að Microsoft bókfærði 1,36 milljarða dala einskipikostnað vegna þróunar á nýjasta stýrikerfinu Windows 8 og nýjum Office-hugbúnaðarvöndli. Af þessum sökum er reiknað með að afkoma fyrirtækisins verði betri á þriðja ársfjórðungi.

Bandaríska dagblaðið The New York Times segir afkomu Microsoft skýrast m.a. af því að fólk hafi haldið að sér höndum og ekki ætla að kaupa nýjar tölvur og tæknibúnað sem keyra á nýja stýrikerfinu fyrr en það kemur á markað í lok mánaðar. Miklar væntingar eru bornar til stýrikerfisins, sem mun keyra bæði á tölvum, snjallsímum og spjaldtölvum. Þá munu nýjustu Lumia-símar finnska farsímaframleiðandans Nokia keyra á stýrikerfinu. Símarnir eru væntanlegir á markað í næsta mánuði.