Afkoma Morgan Stanley á þriðja ársfjórðungi var nokkuð undir væntingum og dróst hagnaður bankans saman um 7% frá sama tímabili í fyrra. Samtals nam hagnaður fjárfestingarbankans, sem er einnig næst stærsta verðbréfafyrirtæki heims, 1,47 milljörðum dala á ársfjórðungnum, eða 1,38 dalir á hlut, en greiningaraðilar höfðu að meðaltali gert ráð fyrir hagnaði upp á 1,54 dali á hlut, að því er Dow Jones-fréttaveitan greinir frá.

Bankinn þurfti að bókfæra hjá sér 940 milljónir Bandaríkjadala vegna tapaðra útlána, en mestan hluta tapsins mátti rekja til umrótsins á fjármálamörkuðum í kjölfar hrunsins á markaði bandarískra undirmálslána. Hins vegar jukust tekjur bankans af fjárfestingarstarfsemi um 45% og námu 1,4 milljörðum dala, auk þess sem tekjur af eignastýringu voru 1,36 milljarðar dala og höfðu hækkað um 61%.

Eftir að gengi hlutabréfa í Morgan Stanley hækkaði um 6% á þriðjudaginn í kjölfar 50 punkta vaxtalækkunar Seðlabanka Bandaríkjanna, hafði gengi bréfanna hins vegar lækkað um ríflega 2% á hádegi í gær að bandarískum tíma. David Sidwell, framkvæmdastjóri fjármálasviðs bankans, tók hins vegar ekki undir með kollega sínnum hjá fjárfestabankanum Lehman Brothers, sem lét hafa það eftir sér á þriðjudaginn að "versta lausafjárkrísan væri nú yfirstaðin". Sidwell sagði að vaxtalækkun seðlabankans hefði vissulega verið kærkomin, en engu að síður væri of snemmt að tala um upphaf endalokanna á þeim vandræðum sem verið hafa á mörkuðum, einkum í ljósi þess að septembermánuður hefur verið mjög erfiður fyrir fjárfestingarbanka.

Morgan Stanley var annar í röð hinna fjóru stóru fjárfestingarbanka á Wall Street sem birtir níu mánaða uppgjör sitt, en á þriðjudaginn tilkynnti Lehman Brothers um afkomu sína á þriðja ársfjórðungi og var hagnaður bankans umfram væntingar. Goldman Sachs og Bear Stearns - sem hefur átt í miklum vandræðum vegna undirmálslánakrísunnar - munu birta uppgjör sín í dag.