Hagnaður myndasögurisans Marvel Entertainment á 2. fjórðungi þessa árs var 60% meiri en á sama tímabili í fyrra.  Hagnaðurinn nam 46,7 milljónum Bandaríkjadala (um 3,7 milljörðum íslenskra króna), þ.e. 59 sentum á hlut, en var á sama tíma í fyrra 29,1 milljón dala.

Sala fyrirtækisins jókst um tæp 55% á fjórðungnum.

Afkoman er mun betri en greiningaraðilar höfðu spáð, en meðalspá þeirra gerði ráð fyrir 44 senta hagnaði á hlut.

Kvikmyndadeild fyrirtækisins skilaði 7,7 milljóna dala hagnaði, en kvikmyndirnar Hulk og Iron Man sem sýndar voru á þessu ári eru úr smiðju Marvel.

Marvel hefur hækkað hagnaðarspá sína fyrir árið 2008 upp í 1,55-1,75 dali á hlut, en fyrri spá gerði ráð fyrir 1,35-1,55 dala hagnaði á hlut.