Hollenski bankinn NIBC, sem Kaupþing [ KAUP ] keypti í ágúst sl., hagnaðist um 69 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi, sem er 60% meiri hagnaður en á sama fjórðungi í fyrra. Þetta er viðsnúningur frá öðrum fjórðungi ársins, en þá var bankinn rekinn með 39 milljóna evra tapi.

Vaxtatekjur bankans jukust um 22% á milli ára á þriðja fjórðungi en þóknanatekjur drógust saman um 69%. Alls jukust rekstrartekjur bankans um 56% á milli ára. Kostnaður jókst minna, um 46%, og hagnaður fyrir skatta jókst um 68%.

Í tilkynningu frá bankanum er haft eftir Michael Enthoven forstjóra bankans að mikill órói á fjármagnsmörkuðum hafi einkennt bankageirann. Þrátt fyrir einskiptistap á fyrri helmingi ársins hafi reksturinn sýnt góðan undirliggjandi vöxt og eiginfjárhlutfallið, Tier-1, standi traust í yfir 10%. Hann segir að viðskiptin hafi gengið ágætlega þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður og að það sé tilhlökkunarefni að verða hluti af samstæðu Kaupþings.