Hagnaður Nordea, stærsta banka Norðurlanda að markaðsvirði, dróst saman um 2% á fyrsta ársfjórðungi. Samtals nam hagnaður bankans 687 milljónum evra, borið saman við 701 milljón evra á sama tíma árið 2007. Útlánatap Nordea á fjórðungnum var 21 milljón evra. Sérfræðingar segja að uppgjör Nordea varpi ljósi á dreift eignasafn bankans, stöðugt tekjuinnstreymi og að lánsfjárkreppan hafi haft takmörkuð áhrif á reksturinn.

Hreinar rekstrartekjur Nordea jukust um 4,7% á fjórðungnum. Hreinar vaxtatekjur hækkuðu einnig á milli ára um 18%, og námu samtals 1,18 milljörðum evra. Hins vegar lækkuðu þóknanatekjur um 7%, í 495 milljónir evra. Christian Clausen, forstjóri Nordea, sagði að bankinn sæi engar vísbendingar um minnkandi umsvif neytenda og hyggst bankinn standa við fyrri afkomuspá sína fyrir árið 2008. Öfugt við flestar aðrar fjármálastofnanir ætlar Nordea að fjölga starfsmönnum um þrjú þúsund á árinu.