Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti í dag fjárhagsspá fyrir árin 2020-25, að því kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Spáin gerir ráð fyrir að næstu sex ár verði 103 milljörðum varið í viðhalds- og nýfjárfestingar á vegum samstæðunnar, en innan hennar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur.

Allsherjaruppfærsla á orkumælum Veitna er stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið á tímabilinu en einnig er gert ráð fyrir byggingu nýrrar aðveitustöðvar rafmagns sem getur þjónað farþegaskipum í Sundahöfn. Reiknað er með að Orku náttúrunnar muni halda áfram uppbyggingu hleðslunet fyrir rafbílaeigendur. Þá stefnir Gagnaver Reykjavíkur að því að ljúka lagningu ljósleiðara til heimila í þéttbýli Reykjanesbæjar, Árborgar og Voga á Vatnsleysuströnd.

Ekki er reiknað með stórum breytingum í tekjum eða gjöldum á næstu árum samkvæmt spánni. Rekstrartekjur munu fara úr 47 milljörðum króna á þessu ári (áætlun) upp í 60,5 milljarða króna árið 2025. Rekstrargjöld eru áætluð rétt rúmir 19 milljarðar í ár en verða 22,6 milljarðar árið 2025.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir í tilkynningunni að rekstur félagsins sé í góðu horfi.

„Þjónusta Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaganna er umfangsmikil. Sem dæmi þá er samanlögð lengd veitulagna hátt í 14 þúsund kílómetrar eða tíföld vegalengdin í kringum landið eftir hringveginum. Þessum kerfum öllum og virkjununum þarf að halda við og uppfæra stýringar í takti við kröfur tímans.

Hagtölur sýna að búast megi við að það dragi úr vexti í samfélaginu á næstu misserum. Því getur þetta verið hentugur tími til framkvæmda. Grundvallaratriði er þó að reksturinn sé í góðu horfi því hagsýni í rekstrinum er forsenda þess að við getum staðið undir eðlilegum væntingum um að sú grunnþjónusta sem fyrirtækin í samstæðunni veita sé á sanngjörnu verði,“ segir Bjarni.

Meðal þess sem kemur fram í spánni er að nettóskuldir OR muni lækka um 35 milljarða króna á spátímanum. Tekjuskattsgreiðslur muni nema 11,7 milljörðum. Arðgreiðslur til eigenda verði 15 milljarðar króna á tímabilinu, en Reykjavíkurborg er langstærsti eigandi Orkuveitunnar.