Afkoma af rekstri Orkuveitu Reykjavíkur (OR) var neikvæð um 556 milljónir króna á síðasta ári. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var rúmlega 21,2 milljarðar króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Rekstrarhagnaður (EBIT) var 6,4 milljörðum meiri í fyrra en árið 2010, og tvöfaldaðist milli ára.

Launakostnaður og annar rekstrarkostnaður dróst saman milli ára. Rekstrarkostnaður nam alls um 12,4 milljörðum og rekstrartekjur voru um 33,6 milljarðar. Tekjurnar voru tæplega 28 milljarðar á árinu 2010.Ársreikningur samstæðu OR var samþykktur af stjórn félagsins í dag.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir í tilkynningu að stjórn félagsins hafi stigið mikilvæg skref til að verja reksturinn fyrir sveiflum í vöxtum og álverði. Þar sé markviss áhættustefna og áhættuvarnasamningar mikilvæg tæki, þó höfuðatriði sé að reksturinn sjálfur sé í góðu horfi.

„Um síðustu mánaðamót lauk gagngerri uppstokkun á öllum rekstri Orkuveitunnar. Það hefur verið afar krefjandi verkefni og ekki sársaukalaust en starfsfólk hefur staðið sig með mikilli prýði. Við sjáum afrakstur þessarar miklu vinnu í uppgjörinu og ýmsir þættir eiga eftir að skila sér í bættri afkomu á næstunni. Það er líka afar mikilvægt. Skuldabyrðin er þung og sveiflur í ytri þáttum hafa mikil áhrif á fjármagnsliði uppgjörsins. Álverð og gengi krónunnar skiluðu þannig 14 milljörðum tekjumegin 2010 en svipaðri fjárhæð gjaldamegin 2011,“ segir Bjarni.