Stoðtækjafyrirtækið Össur hagnaðist um rétt tæpar 9,9 milljónir dala á þriðja ársfjórðungi. Það jafngildir 1.241 milljónum króna og er 2,5% samdráttur frá sama tíma í fyrra. Það sem af er ári nemur hagnaður Össurar 30 milljónum dala, sem er þremur milljónum minna en á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri Össurar að rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 18 milljónum dala, sem er 19% af sölu samanborið við 20% af sölu í fyrra. EBITDA er lægri vegna minni sölu og aukinnar fjárfestingar í rannsóknar- og þróunarstarfi.

Ósáttur við uppgjörið - gleðst yfir Pistoriusi

Afkoman er undir væntingum, að sögn Jóns Sigurðssonar, forstjóra Össurar. Haft er eftir honum í afkomutilkynningu að fjórðungurinn hafi á móti verið ánægjulegur þar sem hlauparinn Oscar Pistorius skráði nafn sitt í sögubækurnar sem fyrsti aflimaði keppandinn á Ólympiuleikunum.

Sala jókst um 2%, mælt í staðbundinni mynt. Heildarsalan nam 99 milljónum Bandaríkjadala samanborið við 101 milljón dala á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Áframhaldandi eftirlit endurgreiðsluaðila hefur hægt á sölu á stoðtækjum í Bandaríkjunum og hefur áfram áhrif á heildarsölu. Enginn söluvöxtur var í stoðtækjum eða 0%, mælt í staðbundinni mynt en söluvöxtur í spelkum og stuðningsvörum var 3%, mælt í staðbundinni mynt. Hvað Asíu varðar var söluvöxturinn 24% á fjórðungnum mælt í staðbundinni mynt.

Sala á stoðtækjum dregst saman

Þá segir í uppgjörinu að reksturinn gengur vel og sýni góða arðsemi. Sala á spelkum og stuðningstækjum vex annan ársfjórðunginn í röð á meðan sala á stoðtækjum dregst saman, sem hefur neikvæð áhrif á framlegð. Þrátt fyrir breytta vörusamsetningu og minni sölu helst framlegðarhlutfallið stöðugt sem staðfestir góðan árangur framleiðslunnar í Mexíkó og jákvæð áhrif annarra verkefna innan framleiðsludeildar. Framlegðin nam 61,7 milljónum Bandaríkjadala eða 63% af sölu sem er sama hlutfall og á þriðja ársfjórðungi í fyrra.