*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 7. febrúar 2006 14:01

Afkoma Össurar undir væntingum

Ritstjórn

Afkoma Össur á fjórða ársfjórðungi var talsvert undir væntingum greiningardeildar Íslandsbanka og hefur gengi þess lækkað um 2,38% það sem af er degi.

Hagnaður ársfjórðungsins nam 3,1 milljón bandaríkjadollara en væntingar stóðu til um að hann myndi vera 5,6 milljónir dollara.

Tekjur félagsins voru 5 milljónum dollara undir væntingum. Það hefur óneitanlega mikil áhrif á rekstrarreikninginn.

Greiningardeildin reiknaði með því að framlegð af vörusölu yrði um 60,6% en var 59%. Lægri tekjur og minni framlegð urðu þess valdandi að EBITDA var 7,9 milljónir dollara en greiningardeildin gerði ráð fyrir EBITDA upp á 12 milljónir dollara.

Greiningardeild Íslandsbanka skoðar EBITDA hlutfallið og segir að félagið hafi skilað 16% framlegð en hún hafi spáð 22%.

Skýringar á lægri framlegð eru nokkrar, segir greiningardeildin.

Endurskipulagningarkostnaður var um 304 þúsund dollarar á ársfjórðungnum. Einnig var gengisþróun óhagstæð, því evran féll á móti dollaranum og krónan hélst sterk. Össur ber mikinn kostnað í krónum en tekjur hérlendis eru litlar.

Tekjur félagsins í evrum eru meiri en gjöldin. Lækkun evru á móti dollara hefur því neikvæð áhrif á heildartekjur félagsins þar sem uppgjörið er í dollurum.

Össur hefur verið að kaupa fyrirtæki, bæði á síðasta ári og í ár, og hefur reksturinn tekið miklum breytingum. Því eru möguleikar þess umtalsverðir, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Markmið félagsins er að auka söluna í 750 milljónir dollara fyrir árslok 2010 og að EBITDA framlegð verði 23%.