Góð staða á hrávörumarkaði og aukin sala á snakki og gosdrykkjum í Norður Ameríku eru taldar vera ástæður þess að afkoma PepsiCo varð nokkuð yfir væntingum fjárfesta.

Fyrirtækið birti í dag afkomu annars ársfjórðungs en þar kom fram að tekjur á fjórðungnum námu 15,9 milljörðum bandaríkjadollara. Það er 6% lægri tekjur en á sama tíma í fyrra en nokkuð meira en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir. Í frétt Financial Times um málið segir að flestir hafi spáð 15,8 milljarða dollara tekjum.

Meðal þess sem fyrirtækið framleiðir eru Pepsi-gosdrykkirnir vinsælu, Doritos snakk og Tropicana safar. Tekjur af snakksölu jukust um 8% frá árinu áður og tekjur af drykkjarvörum jukust um 2% á sama tíma.

Forstjóri PepsiCo, Indra Nooyi, sagði í fréttatilkynningu að fyrirtækið hefði stærsta framlag allra fyrirtækja í mat- og drykkjarvörubransanum í Bandaríkjunum til söluaukningar á smásölumarkaði vestanhafs. Sala þar jókst um 400 milljónir bandaríkjadollara á fjórðungnum.

Hér er hægt að sjá uppgjörið í heild sinni.