Hagnaður evrópska drykkjarvöruframleiðandans Refresco fyrir afskriftir og fjármagnsliði dróst saman í fyrra, eftir nær samfelldan vöxt frá árinu 2006.

Eignarhaldsfélagið Stoðir, áður FL Group, á 40,3% í Refresco og gengi framleiðandans hefur því töluvert að segja fyrir Stoðir. Ásamt TM er Refresco helsta eign Stoða.

Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóri Stoða, segir í samtali við Viðskiptablaðið að fleiri evrópskir drykkjarvöruframleiðendur hafi lent verr í því á síðasta ári en áður. Þeir hafi orðið fyrir barðinu á miklum hrávöruhækkunum sem ekki tókst að koma í gegnum smásöluna. Veðurfar var einnig óvenju slæmt í Evrópu síðasta sumar, sem hafði áhrif á framleiðsluna.

Þá nefnir hann að gera megi ráð fyrir að staða evrópska efnahagslífsins hafi sitt að segja.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.