*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 8. maí 2018 18:07

Afkoma Regins batnar

Hagnaður Regins jókst úr 620 milljónum króna í 1.460 milljónir króna milli ára.

Ritstjórn
Helgi S Gunnarsson, forstjóri Regins.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Regins jókst úr 620 milljónum í 1.460 milljónir króna milli fyrsta ársfjórðungs 2017 og 2018. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu nam 1,2 milljörðum króna miðað við 1 milljarð á sama tíma fyrir ári. Matsbreyting fjárfestingaeigna nam 1,5 milljörðum króna á fjórðungnum.

Vöxtur leigutekna nam 14% milli ára. Bókfært virði fasteigna og lóða í eigu Regins nemur 101 milljarði króna. Eiginfjárhlutfall félagsins er 35%.

Hagnaður á hlut fyrir tímabilið er 0,86 en var 0,40 fyrir sama tímabil í fyrra. Umbreyting á Smáralind er á lokametrunum og hefur gestum þar fjölgað um 29% á fyrstu mánuðum ársins síðustu þrjú ár. Þá eru viðræður um kaup Regins á FAST-1 Sem á meðal annars Höfðatorgsturninn og Borgartún 8-16 á langt komin en samtals á FAST-1 44 þúsund fermetra fasteignir.

Félagið vinnur auk þess að uppbyggingu Hafnartorgs og Austurhafnar í Miðborg Reykjavíkur þar sem vonir standa til að finna megi fjölda lúxusvörumerkja líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku.