Bæjarsjóður Reykjanesbæjar, sem sinnir öllum almennum rekstri bæjarins, skilaði 708 milljón króna afgangi eftir afskriftir og fjármagnsliði á síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjanesbæ þar sem segir að niðurstaðan hafi verið umfram væntingar.

Skuldir Reykjanesbæjar nema 22.334 milljónum króna og segir í tilkynningu að Reykjanesbær hafi á árinu greitt niður eina erlenda lánið sitt. Skuldir og skuldbindingar bæjarsjóðsins lækkuðu um 3.488 milljónir króna á árinu.

Rekstrarhalli samstæðu sveitarfélagsins nam 433 milljónum króna. Það er minni halli en áætlanir gerðu ráð fyrir. Enn eru vandamál með fjármögnun vegna framkvæmda sveitarfélagsins við Helguvíkurhöfn og var 667 milljón króna taprekstur á Reykjaneshöfn.