Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A- og B- hluta, var neikvæð um 4.675 milljónir króna á árinu 2011. Meginástæður fyrir því má rekja til gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga upp á tæpa 4,4 milljarða sem var áætluð 600 milljónir, gengistaps og til aukins fjármagnskostnaðar vegna verðbólgu á árinu, segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

„Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 2.808 mkr en áætlun gerði ráð fyrir að niðurstaðan yrði jákvæð um 66 mkr. Ástæðan er fyrst og fremst há gjaldfærsla vegna lífeyrisskuldbindinga en hún nam tæpum 4,4 milljörðum en áætlun gerði ráð fyrir 600 mkr og aukinn fjármagnskostnaður vegna verðbólgu. Ekki var hægt að áætla lífeyrisskuldbindingarnar vegna óvissu í kjaraviðræðum,“ segir í tilkynningu. Tekjur A-hluta voru um 68,5 milljarðar eða 2,9 milljörðum yfir áætlun. Rekstrargjöld voru 71 milljarður eða tæplega 5,5 milljörðum yfir áætlun. Það skýrist meðal annars af hærri lífeyrisskuldbindingum.

„Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A og B hluta, var neikvæð um 4.675 mkr en árið 2010 var rekstrarniðurstaðan jákvæð um 13.671 mkr. Þennan viðsnúning í rekstri er einkum að finna í fjármagnsliðnum sem reyndist neikvæður um 22.691 mkr en var jákvæður um 10.505 mkr árið 2010. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 11.459 mkr sem er um 512 mkr lakara en áætlun gerði ráð fyrir.

Engu að síður leiðir samstæðuuppgjörið í ljós að hinar víðtæku hagræðingaraðgerðir sem Orkuveita Reykjavíkur greip til 2010 og 2011 hafa skilað mjög jákvæðum árangri. Sjóðstreymi samstæðunnar hefur styrkst verulega á milli ára og er veltufé frá rekstri um 26,3 milljarðar eða 8,2 milljörðum hærra en árið 2010 og reyndist 24% af tekjum miðað við 19% árið 2010.

Eiginfjárhlutfall og skuldsetningarhlutfall samstæðunnar bera hins vegar enn mikil merki gengisfalls krónunnar, sérstaklega vegna erlendra skulda Orkuveitu Reykjavíkur. Rekstrartekjur A- og B-hluta voru 108.868 mkr eða um 3.367 milljónir umfram áætlun og rekstrargjöld voru 97.409 mkr. eða 3.879 milljónir umfram áætlun. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 22.691 mkr en áætlun gerði ráð fyrir að þeir yrðu neikvæðir um 6.893 milljónir króna.

Þrátt fyrir þetta er A-hluti samstæðu Reykjavíkurborgar afar vel í stakk búinn til að mæta skuldbindingum sínum og sýnir niðurstaðan gott greiðsluhæfi. Eigið fé A-hluta nam tæpum 80 milljörðum króna í árslok en var 80,3 milljarðar í árslok 2010. Þá stendur borgin ágætlega að vígi þar sem handbært fé A-hluta nam um 11,8 milljörðum í árslok þrátt fyrir að A-hluti hafi lánað Orkuveitu Reykjavíkur 7,4 milljarða króna á árinu. Þá gekk allur almennur rekstur fagsviða borgarinnar eftir áætlunum.“

Til A-hluta borgarinnar telst starfsemi er að hluta eða öllu leyti fjármögnð með skattekjum. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra að stofni fjármagnaður með þjónustutekjur. Fyrirtækin eru: Bílastæðasjóður Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Orkuveita Reykjavíkur, Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins, Slökkvilið höfuðborgar¬svæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Jörundar ehf.