*

mánudagur, 6. júlí 2020
Innlent 28. júní 2019 16:40

Afkoma ríkissjóðs jákvæð um 84 milljarða

Rekstrarafkoma ríkissjóðs árið 2018 var jákvæð um 84 milljarða króna, samanborið við 39 milljarða króna afgang árið 2017.

Ritstjórn
Bjarni Benediktsson.
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt nýbirtum ríkisreikningi var rekstrarafkoma ríkissjóðs árið 2018 jákvæð um 84 milljarða króna, samanborið við 39 milljarða króna afgang árið 2017. Í tilkynningu segir að þessi niðurstaða sýni glögglega sterka stöðu ríkisfjármálanna.

Tekjur ársins 2018 námu samtals 828 milljörðum króna og rekstrargjöld 780 milljörðum króna. Hrein fjármagnsgjöld voru neikvæð um 56 milljarða króna en hlutdeild í afkomu félaga í eigu ríkisins jákvæð um 91 milljarð króna.

„Komið er að vatnaskilum í efnahagslífinu eftir einstaklega þróttmikinn og langan uppgangstíma með miklum tekjuauka heimila, fyrirtækja og ríkissjóðs. Jákvæð afkoma ríkissjóðs árið 2018 endurspeglar styrk hagkerfisins þrátt fyrir að tekið hafi að halla undan fæti á síðari hluta ársins. Undanfarin ár hafa einkennst af nokkurri aukningu útgjalda í takt við auknar tekjur og ekki síst lækkandi vaxtabyrði ríkissjóðs. Með skuldalækkun og endurfjármögnun lána á hagstæðum kjörum hefur viðnámsþróttur ríkisfjármálanna verið aukinn til muna sem kemur að góðum notum nú þegar hægir á hagvexti,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um niðurstöðu reikningsins, í tilkynningu.