Handbært fé frá rekstri ríkissjóðs jókst um 29,7 milljarða króna innan ársins, sem er 16 milljörðum hagstæðari útkoma heldur en á sama tíma í fyrra. Útkoman er 35 milljörðum hagstæðari en gert var ráð fyrir í áætlun, segir í greiðsluupgjöri ríkissjóðs fyrir fyrri helming árs sem birt var í dag.

Tekjur reyndust um 17 milljörðum hærri en í fyrra meðan gjöld hækkuðu um 1,3 milljarða. Hreinn lánsfjárjöfnuður er jákvæður um 27,5 milljarða króna sem er 1,6 milljörðum betra en á sama tíma í fyrra, segir í uppgjörinu.

Innheimtar tekjur ríkissjóðs jukust um 10,4%, eða úr 165,5 milljörðum í 183 milljarða. Skattar á tekjur og hagnað námu 65 milljörðum króan og jukust um 16 milljarða frá síðasta ári, eða 33%, þar af jókst tekjuskattur einstaklinga um 12% og lögaðila um 98%.

Greidd gjöld nema 153,2 milljörðum króna og hækka um 1,3 milljarða milli ára, eða 0,8%. Vaxtagreiðslur lækka um 7,7 milljarða, einkum vegna þess að stór flokkur spariskírteina var á innlausn í apríl í fyrra, segir í uppgjörinu.

Lántökur ársins nema 16,2 milljörðum króna en afborganir lána eru 38,9 milljarðar. Mismunurinn er fjármagnaður með handbæru fé frá rekstri.