Rekstrarkostnaður sjónvarps og útvarps hjá 365 Miðlum hf. er 1,8 milljörðum króna lægri en hjá Ríkisútvarpinu, að því er segir í skýrslu nefndar um starfsemi og rekstur RÚV, sem verið er að kynna í dag. Þrátt fyrir það er rekstrarhagnaður og EBITDA hjá þessum rekstrareiningum 365 betri en hjá RÚV. Tekið er fram í skýrslunni að við þennan samanburð sé rétt að hafa í huga þær skyldur sem hvíli á RÚV vegna almannaþjónustuhlutverks stofnunarinnar.

Á rekstrarárinu 2013-14 námu tekjur RÚV 5.400 milljónum króna, en þar af var ríkisframlag 3.318 milljónir. Tekjur sjónvarps og útvarps hjá 365 voru hins vegar 3.941 milljón króna árið 2014. Auglýsingatekjur RÚV voru einnig hærri en hjá 365, eða 1.844 milljónir króna á móti 1.240 milljónum.

Gjöld RÚV námu 5.414 milljónum króna, en gjöld 365 3.577 milljónum króna. Dagskrár- og framleiðslukostnaður skýrir muninn að stærstu leyti, en hann var 3.929 milljónir króna hjá RÚV, en 2.010 hjá 365. EBITDA hjá 365 nam 444 milljónum og rekstrarhagnaður var 364 milljónir króna, en EBITDA hjá RÚV var 303 milljónir og rekstrartap nam fjórtán milljónum króna.

Í skýrslunni segir að stöðugildi hjá RÚV séu alls 252, en 111 í sjónvarpi og útvarpi hjá 365 Miðlum. Þá noti RÚV mun fleiri fermetra undir sína starfsemi, en fermetrar í notkun hjá RÚV eru 13.900, en 6.050 hjá 365 miðjum.