Afkoma Sampo, sem Exista á tæplega 20% hlut í, var mun betri á öðrum ársfjórðungi en á sama tíma í fyrra en félagið birti uppgjör sitt í dag. Hagnaður fyrir skatta á öðrum fjórðungi var 289 milljónir evra en fyrir sama tímabil í fyrra nam hagnaðurinn 219 milljónum evra.

Hagnaður fyrir skatta af tryggingastarfsemi nam 142 milljónum evra á tímabilinu en var 53 milljónir evra á sama tímabili í fyrra. Tekjur af fjárfestingum var 61 milljón evra en á sama tíma í fyrra var 31 milljóna evra tap á fjárfestingum félagsins.

Þess má geta að fjárfestingastarfsemi félagsins skilaði 60 milljóna evra hagnaði á ársfjórðungnum en var með 15 milljóna evra tap á sama tíma í fyrra. Þar munaði mestu um að félagið fékk greiddar 35 milljónir evra í arð af fjárfestingu sinni í Nordea bankanum.