Í Morgunkorni Glitnis segir að hagnaður Sampo fyrir skatta á þriðja fjórðungi var um 256 m.EUR en spá Glitnis í Finnlandi hljóðaði upp á 247 m.EUR. Hagnaður fyrir skatta af fasteigna- og slysatryggingum var um 119 m.EUR sem var talsvert undir væntingum Glitnis (168 m.EUR). Á hinn bóginn var hagnaður fyrir skatta af líftryggingastarfsemi Sampo um 111 m.EUR en spá Glitnis var um 49 m.EUR. Hagnaður af verðbréfasafni félagsins nam um 22 m.EUR í fjórðungnum og var það lítillega undir væntingum Greiningar í Finnlandi (spá 30 m.EUR) vegna mikilla sviptinga á fjármálamörkuðum.

Tryggingastarfsemi mun líklega áfram skila góðri afkomu
Afkoman á þriðja fjórðungi hjá Sampo var á heildina litið í takti við væntingar að sögn Morgunkornsins. Afkoma af tryggingastarfsemi verður líklega áfram stöðug á meðan afkoman af fjárfestingum sveiflast. Talsverðar vonir eru bundnar við 7,1% eignarhlut Sampo í Nordea því sænska ríkið stefnir að því að selja 19,9% hlut sinn í félaginu og gæti Sampo tekið þátt í kaupum á þeim hlut. Til viðbótar stefnir Nordea að því að kaupa um 4,8% af útgefnu hlutafé í Sampo sem hefur að öllum líkindum jákvæð áhrif á verð hlutabréfa félagsins.