Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta bæjarsjóðs Seltjarnarnesbæjar var jákvæð um 229,5 milljónir króna í fyrra samanborið við 92,8 milljóna króna afgang árið 2011. Um 242,4 milljóna króna afgangur varð af rekstri A-hluta bæjarsjóðs, samanborið við 129,2 milljóna króna rekstrarafgang árið 2011.

Tekjur A- og B-hluta samanlagt jukust um 240 milljónir króna og rekstrarkostnaður um 100 milljónir milli ára. Afskriftir í fyrra voru svipaðar og árið á undan og hrein fjármagnsgjöld sömuleiðis.

Afkoman í fyrra er töluvert betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þannig var gert ráð fyrir 21 milljóna króna afgangi á A- og B-hluta og 52 milljóna króna afgangi á A-hluta einum saman.

Eignir A-hluta hækkuðu um 190 milljónir á milli ára og voru 5.868,3 milljónir í árslok 2012. Eignir A- og B-hluta samanlagt jukust um 220 milljónir og voru 5.491,5 milljónir á sama tíma. Skuldir og lífeyrisskuldbindingar A- og B-hluta minnkuðu um rúmar 30 milljónir og námu 1.817,3 milljónum króna og þar af eru langtímaskuldir 263 milljónir króna. Eigið fé hækkaði úr 3.421,6 milljónum í 3.674,2 milljónir.

Í tilkynningu frá bænum er bent á að útsvar var lækkað 1. janúar í ár og nemur álagningarhlutfallið nú 13,66%. Um 300 milljónum króna var varið í framkvæmdir á vegum bæjarins í fyrra.