*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 29. október 2020 16:12

Afkoma Sjóvár eykst verulega milli ára

Það sem af er ári hefur hagnaður Sjóvár dregist saman um nær fjórðung milli ára. Þróunin snerist við á þriðja ársfjórðungi.

Alexander Giess
Hermann Björnsson forstjóri Sjóvár.

Sjóvá hagnaðist um tæplega 1,3 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi, nær þrefalt hærri hagnaður en á sama fjórðungi ári áður. Eigin iðgjöld jukust milli ára og námu 5,3 milljörðum en fjárfestingatekjur námu 750 milljónum samanborið við 105 milljónir á 3. ársfjórðungi 2019. 

Hagnaður af vátryggingastarfsemi fyrir skatta nam 988 milljónum og jókst lítillega milli ára. Hagnaður af fjárfestingastarfsemi fyrir skatta nam 572 milljónum samanborið við rúmlega 220 milljóna tap árið áður.

Það sem af er ári hefur hagnaður Sjóvár dregist saman um nær fjórðung milli ára numið 2,3 milljörðum króna. Samsett hlutfall nam 83,2% en það var 86,5% á þriðja ársfjórðungi 2019. Sjóvá hagnaðist um 1,5 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi 2020 og tapaði um 465 milljónum á þeim fyrsta.

Gert er ráð fyrir að samsett hlutfall fyrirtækisins verði 93% á árinu 2020 og afkoma fyrir skatta verði um 3,6 milljarðar. Horfur til næstu tólf mánaða eru að samsett hlutfall verði um 92% og afkoma fyrir skatta 3,4 milljarðar.

Stjórn ákvað á fundi sínum í dag að boða til hluthafafundar þann 25. nóvember 2020 þar sem borin verður upp tillaga um að ekki verði greiddur út arður á árinu 2020 vegna rekstrarársins 2019.

Beint streymi vegna afkomu félagsins á þriðja ársfjórðungi hefst í dag klukkan 16.15.

Hermann Björnsson, forstjóri:

„Afar ánægjuleg niðurstaða á þriðja ársfjórðungi endurspeglar sterkan rekstur Sjóvár. Hagnaður var góður af bæði vátryggingastarfsemi og fjárfestingastarfsemi en afkoma af vátryggingastarfsemi stendur á bak við tvo þriðju hluta af afkomu þriðja ársfjórðungs og um helming afkomunnar ef litið er til fyrstu níu mánaða ársins. Það verður að teljast gríðarlega sterkt þegar haft er í huga að Sjóvá, eitt tryggingafélaga, felldi í heild sinni niður bifreiðaiðgjöld einstaklinga í maí á þessu ári. Nam sú niðurfelling 650 milljónum króna.

Það er ánægjulegt að sjá að vöxtur eigin iðgjalda á þriðja ársfjórðungi er rúmlega 3% frá fyrra ári og iðgjöld standa nánast í stað á fyrstu níu mánuði ársins við krefjandi aðstæður. Iðgjaldavöxtur á einstaklingssviði, þrátt fyrir fyrrgreinda niðurfellingu, vegur upp á móti samdrætti í iðgjöldum á fyrirtækjasviði sem skýrist einna helst af minnkandi umsvifum íslenskrar ferðaþjónustu í kjölfar útbreiðslu Covid-19. 

Markvissar aðgerðir síðustu ára hafa bætt vátryggingareksturinn og skilað góðum rekstrarárangri. Þar fer saman góður iðgjaldavöxtur umfram vöxt eigin tjóna en það hefur lengi verið yfirlýst stefna að skila viðunandi arðsemi af vátryggingarekstri félagsins.“