Sala Skipta, móðurfélags Símans, jókst um einn milljarð króna á milli ára eða um 5%. Sala nam 19,8 milljörðum króna samanborið við 18,8 milljarða á sama tímabili árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 4,2 milljörðum króna samanborið við 4,1 milljarð fyrir sama tímabil 2008. EBITDA hlutfall var 21,1%.

Í tilkynningu kemur fram að handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 4,2 milljörðum króna samanborið við 7,9 milljarða á sama tímabili árið áður. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 3,6 milljarði króna. Tap Skipta á fyrri hluta árs nam 2,1 milljarði króna sem skýrist einkum af gengisþróun íslensku krónunnar á tímabilinu. Tap á sama tímabili árið 2008 var 4,0 milljarðar króna.

,,Fjármagnsgjöld voru 3,6 milljarðar króna en þar af nam gengistap 1,2 milljörðum króna.  39% af tekjum samstæðunnar koma af erlendri starfsemi félagsins. Vaxtaberandi skuldir að frádregnum innistæðum (nettó vaxtaberandi skuldir) námu 53,6 milljörðum króna við lok tímabilsins en voru 58,7 milljarðar á sama tíma ári áður og hafa því lækkað um 5,1 milljarð króna.  Eigið fé Skipta er 34,3 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall er 26%. “Fyrri hluti ársins einkenndist af mikilli óvissu í rekstrarumhverfi Skipta. Samdráttur var í einkaneyslu á Íslandi sem er stærsti markaður fyrirtækisins. Þá veiktist íslenska krónan enn frekar sem skýrir að mestu tap félagsins á tímabilinu. Miðað við þessar aðstæður erum við sátt við afkomuna. Tekist hefur að laga kostnaðaruppbyggingu félagsins að minnkandi eftirspurn og hagnaðurinn fyrir fjármagnsliði og afskriftir er því svipaður og í fyrra. Mikil samkeppni er á fjarskiptamarkaðnum og í kjölfar gjaldþrots Teymis er ríkisvaldið nú orðið þátttakandi á fjarskiptamarkaði í gegnum eignarhald sitt á bönkunum. Afar mikilvægt er að við slíkar aðstæður gæti yfirvöld vel að því að samkeppni á markaðnum sé eðlileg og í samræmi við leikreglur," segir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta hf. í tilkynningu.