Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2005 var 182,0 mkr. Á sama tímabili árið áður var 87,0 mkr. tap. Eigið fé Sláturfélagsins er rúmar 1.372 mkr. og eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 41%. Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 2.218 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2005, en 2.048 mkr. á sama tíma árið áður og hækka því um rúm 8%.

Launakostnaður, annar rekstrarkostnaður og afskriftir eru nær óbreytt. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 77 mkr., en 50 mkr. tap árið áður.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 35 mkr., en voru 79 mkr. árið áður. Gengistap nam 3 mkr. samanborið við 22 mkr. á sama tímabili í fyrra. Hagnaður af sölu hlutabréfa var 127 mkr. en eignarhluti í Ferskum kjötvörum hf. var seldur. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var jákvæð um 3 mkr. en árið áður neikvæð um 3 mkr. Að teknu tilliti til 10 mkr. hlutdeildar minnihluta í afkomu var hagnaður af rekstri tímabilsins 182,0 mkr. en 87,0 mkr. tap á sama tíma árið áður.

Veltufé frá rekstri var 143 mkr. á fyrri árshelmingi ársins 2005, samanborið við 9 mkr. fyrir sama tímabil árið 2004.

Heildareignir Sláturfélagsins 30. júní voru 3.343 mkr. og eiginfjárhlutfall 41%. Veltufjárhlutfall var 2,0 í lok júní 2005, en 1,9 árið áður.

Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í apríl s.l. var í maímánuði greiddur 13,91% arður af B-deild stofnsjóðs alls 25 mkr. og reiknaðir 6% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 12 mkr.