Sláturfélag Suðurlands hagnaðist um 129 milljónir á fyrri helmingi ársins samanborið við 21 milljón tap á sama tíma árið áður. Þetta kemur fram árshlutauppgjöri Sláturfélagsins.

Rekstrartekjur SS jukust um 9% milli ára og námu tæplega 6,6 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Launakostnaður lækkaði um tæpt eitt prósent og nam 1,6 milljörðum. Hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) jókst úr 298 milljónum í 539 milljónir milli ára.

„Afkoma Sláturfélagsins batnar milli ára. Neikvæð áhrif af COVID-19 koma einkum fram í afurða- og matvælahluta samstæðunnar en samdráttur í innlendri kjötsölu milli ára var um 4% á landsvísu. Gert er ráð fyrir að neikvæðra áhrifa af COVID-19 muni áfram gæta á árinu og því næsta hið minnsta,“ segir í tilkynningu Sláturfélagsins samhliða uppgjörinu.

Eignir SS námu 10,8 milljörðum í lok júní. Eigið fé var um 5,2 milljarðar og eiginfjárhlutfallið því 48%. Langtímaskuldir í lok júní voru um 2,6 milljarðar og næsta árs afborganir um 102 milljónir. Í ágúst var lokið við endurfjármögnun móðurfélagsins en tekin voru ný lán til 30 ára og eldri lán greidd upp. „Vaxtakjör eru umtalsvert betri sem hefur jákvæð áhrif á vaxtakostnað félagsins á komandi árum,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að aukin vélvæðing og öflug vöruþróun hafi styrkt rekstrargrundvöll félagsins. Þó gera stjórnendur SS ráð fyrir erfiðum aðstæðum á kjötmarkaði næstu árin og bæta við að erfitt sé að meta hversu lengi neikvæðu áhrifin af Covid-19 muni vara.

„Staða lykilvörumerkja félagsins í matvælaiðnaði er sterk og ímynd félagsins góð á markaði sem rennir stoðum undir frekari uppbyggingu á markaðsstöðu á komandi árum.“