Afkoma Stork NV fyrir þriðja ársfjórðung versnaði frá sama fjórðungi í fyrra. Fyrirsjáanlegt var að útkoma Aerospace yrði léleg vegna tafa sem hafa orðið á mikilvægum verkefnum innan þessa hluta fyrirtækisins og er þetta megin ástæða slakrar útkomu samstæðunnar í heild. EBIT á 3. ársfjórðungi er þannig aðeins 20 milljónir. evra samanborið við 27 milljónir. evra á sama ársfjórðungi í fyrra. Greint var frá þessi í Morgunkorni Glitnis.

"Food and Dairy" dregur afkomuna niður
Stork Food Systems, sem Marel hefur hug á að kaupa, bætti afkomu sína á heildina litið og reyndist EBIT þessa hluta samstæðunnar 4,6 m. evra á 3. ársfjórðungi, samanborið við 3,5 milljónir evra á sama fjórðungi í fyrra. Þessar tölur segja þó ekki alla söguna því stærstur hluti Stork Food Systems, sem snýr að framleiðslu á tækjum til vinnslu fuglakjöts, skilaði góðri afkomu á meðan minni hluti fyrirtækisins (Food and Dairy) skilaði tapi. Telja má líklegt að Marel muni selja þann hluta ef félaginu tekst að kaupa Stork Food Systems. Formlegar viðræður standa enn yfir um framtíð Stork á milli LME, Stork og Candover.