Afkoma sveitarfélaga á Íslandi hefur versnað til muna. Frá þessu greinir greiningardeild Arion banka. Þetta er fimmta árið í röð sem bankinn rannsakar afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga landsins. Alls eru 27 sveitarfélög skoðuð, sem öll eiga það sameiginlegt að telja 1.500 íbúa eða fleiri. Samanlagður íbúafjöldi sveitarfélaganna í úrtakinu er rúmlega 308.000 eða um 93% landsmanna. Í greiningunni er miðað við A- og B-hluta sveitarfélaganna, svo að sveitarsjóður, fyrirtæki, stofnanir og annar rekstur er talinn með.

Skýrsla greiningardeildarinnar sýnir að rekstur sveitarfélaga hafi harðnað á milli ára þrátt fyrir síbatnandi skuldastöðu. Launahækkanir í kjölfar nýrra kjarasamninga hefur reynst sveitarfélögunum erfiður biti að kyngja þar sem útsvarshlutfall er í mörgum tilfellum í lögbundnu hámarki og geta til að auka tekjur takmarkaðar. Þá virðist einnig sem fjárfestingar þeirra þurfi að sitja á hakanum meðan tekist er á við önnur viðfangsefni í rekstrinum.

Framlegð fer lækkandi

Árið 2014 lækkaði EBITDA framlegð sveitarfélaganna í fyrsta sinn frá því að Arion byrjaði að taka saman stöðuna. Þróunin hefur haldið áfram og lækkaði EBITDA sem hlutfall af rekstrartekjum um 4,3% að vegnu meðaltali.  EBITDA framlegð er því komin undir 15% að vegnu meðaltali, eftir að hafa farið hæst í 23% árið 2013, og mælast 19 af 27 sveitarfélögum með framlegð undir 15%.

Tekjur jukust nokkuð á nýliðnu rekstrarári og var raunvöxtum tekna að meðaltali 6,3% eða um 4,3 prósentustiga aukning á milli ára. Hins vegar jukust gjöld ívið meira eða um 11,4% að raungildi. Síðastliðin tvö ár hafa því rekstrartekjur aukist um 8,5% að raungildi á meðan að gjöld hafa aukist um 22,7%.

Heilt yfir skiluðu sveitarfélögin hagnaði á árinu að hreinu meðaltali en þegar horft er til vegins meðaltals var um taprekstur að ræða. Hækkanir á lífeyrisskuldbindingum Reykjavíkurborgar vega þar þungt en um 5 milljarða króna hallarekstur var á árinu. 27 af 10 sveitarfélögum skiluðu tapi á árinu, samanborið við 4 árið áður.

Skuldastaðan batnar en fjárfesting dregst saman

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber sveitarfélögum að halda heildarskuldum og skuldbindingum undir 150% af reglulegum tekjum. Samkvæmt viðmiði Arion banka stendur skuldastaða sveitarfélaganna nú að vegnu meðaltali í 117,8% samanborið við 120,6% árið áður. Þrjú sveitarfélög færast undir veikleikaviðmiðin.

Árið 2014 öx meðal fjárfestingu á íbúa um 20,5% milli ára. Þróunin hefur þó snúist við, þar sem 16 af 27 sveitarfélögum hafa dregið fjárfestingar sínar saman.