Almennt má segja að afkoma sveitarfélaganna batnaði frá á árinu 2013 miðað við fyrra ár. Þetta má greina úr niðurstöðum A-hluta ársreikninga sveitarfélaga fyrir árið 2013 sem lágu fyrir úr ársreikningum 65 sveitarfélaga þar sem búa 99,7% íbúanna. Þetta kemur fram í frétt á vef Sambands íslenskra sveitafélaga .

Afkoman hefur í raun batnað hægt og sígandi frá árinu 2010. Ástæða þess er bæði að atvinnulífið í landinu hefur verið að styrkjast og atvinnuþátttaka verið að aukast. Einnig hefur mikið verið unnið á þessum tíma hjá sveitarfélögum landsins í að bæta rekstur þeirra sem skilar sér í aukinni skilvirkni og betri afkomu.

Skatttekjur A-hluta hækkuðu úr 205,4 ma.kr í 222,8 ma.kr. á árinu 2013. Það er hækkun um 17,4 ma.kr. eða 8,5%. Á sama tíma hækkaði rekstrarkostnaður úr 186,6 ma.kr í 198,2 ma.kr. eða um 6,2%. Veltufé frá rekstri hækkaði um 3,1 ma.kr. eða um 15,6%. Það sýnir að rekstrarstaða sveitarfélaganna hefur styrkst verulega sem þýðir að þau eiga auðveldara með að fjármagna afborganir lána og nýfjárfestingar. Veltufé frá rekstri var 9,7% af heildartekjum. Fjárfestingar eru áfram lágar þó að þær hækki heldur frá fyrra ári. Áfram er lögð mikil áhersla á að greiða niður langtímaskuldir.