Útgerðarfélagið Síldarvinnslan (SVN) skilaði 83-86 milljóna dala rekstrarhagnaði fyrir afskriftir (EBITDA), eða sem nemur 10,7-11,1 milljarði króna, árið 2021, samkvæmt drögum að uppgjöri fjórða ársfjórðungs. Afkoman er 9-11 milljónir dala, eða um 1,2-1,4 milljarðar króna, umfram spár sem félagið lagði fram fyrri hluta síðasta árs sem gerðu ráð fyrir 72-77 milljóna dala EBITDA hagnaði.

„Á síðustu mánuðum hafa komið inn óvæntir jákvæðir þættir í reksturinn sem skýra betri afkomu,“ segir í tilkynningu sem Síldarvinnslan sendi frá sér í gærkvöldi.

Félagið bendir á að kvóti í íslensku síldinni var aukinn og var hún unnin að stórum hluta til manneldis. Spár Síldarvinnslunnar höfðu ekki gert ráð fyrir jafnmikilli manneldisvinnu á íslensku síldinni þar sem sýking hefur hrjáð stofninn undanfarin ár. Hún hafi hins vegar verið lítil í haust.

Þá hafi verið gefinn út loðnukvóti á haustmánuðum sem ekki var inni áætlunum félagsins og veiddu skip félagsins rúm 19 þúsund tonn í desember og verksmiðjurnar tóku á móti rúmum 21 þúsund tonnum af loðnu. Síldarvinnslan varaði þó við í fjárfestakynningu fyrir þriðja fjórðung 2021 að verðin sem sáust í síðustu loðnuvertíð verði ekki í boði að þessu sinni og viðskiptabann á Rússland muni nú „bíta fast“.

Sjá einnig: Loðnukvótinn „sprengja í fangið“

Félagið segir að útgerð og vinnsla hafi einnig almennt gengið vel á árinu. Breytingarnar á síðasta fjórðungi endurspegli sveiflur sem geta verið í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja þar sem ástand fiskistofna og aðstæður á mörkuðum skipta miklu máli og eru ekki alltaf fyrirsjáanlegar.

Hlutabréfaverð SVN hefur hækkað um meira en 2% í fyrstu viðskiptum dagsins og stendur í 102 krónum þegar fréttin er skrifuð. Uppgjör SVN fyrir fjórða ársfjórðung, sem er enn í vinnslu og getur því tekið breytingum, verður birt þann 10. mars næstkomandi.