*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 22. október 2020 15:36

Afkoma Tesla umfram væntingar

Á þriðja ársfjórðungi 2020 jókst sala Tesla jókst um 40% milli ára. Hagnaður án einskiptaliða var þriðjungi hærri en greinendur höfðu spáð.

Ritstjórn
Elon Musk forstjóri og stofnandi Tesla.
epa

Fimmta ársfjórðunginn í röð hefur afkoma rafbílaframleiðandans Tesla verið jákvæð en félagið hagnaðist  um 331 milljón Bandaríkjadala, andvirði 46 milljarða króna. Hagnaður á þriðja ársfjórðungi nam 27 sentum á hvert hlutabréf og jókst um tæplega 70% milli ára.

Sala félagsins jókst um 40% á milli ára en hún nam 8,8 milljörðum dala á þriðja ársfjórðungi 2020. Elon Musk, forstjóra og stofnandi Tesla, sagði að fjórðungurinn hafði verið sá besti í sögu fyrirtækisins. „Ég held að ég hafi aldrei verið jafn bjartsýnn á framtíð Tesla og ég er núna,“ hafði MarketWatch eftir Musk. Jákvæð afkoma Tesla eykur líkur félagsins á að vera skráð í S&P 500 vísitöluna.

Hagnaður án einskiptisliða nam 874 milljónum dala eða 76 sentum á hvert hlutabréf sem er þriðjungi meira en greinendur höfðu gert ráð fyrir. Sala félagsins var sex prósentustigum hærri en greinendur spáðu fyrir um. Án einskiptisliða hagnaðist Tesla um 37 sent á hvert hlutabréf á sama fjórðungi fyrir ári síðan.

Þetta er einnig fjórði ársfjórðungurinn í röð sem afkoma Tesla hefði verið neikvæð ef einungis væri litið á bílasölu félagsins. Alls seldi Tesla mengunarkvóta (e. regulatory credits) fyrir 197 milljónir dala og án sölu á þeim kvótum hefði afkoma rafbílaframleiðandans verið neikvæð.

Fyrr í mánuðinum tilkynnti rafbílaframleiðandinn að tæplega 140 þúsund bílar höfðu verið seldir á þriðja ársfjórðungi 2020. Félagið stefnir á að selja hálfa milljón bíla á þessu ári. Á næsta ári er gert ráð fyrir að félagið selji allt að milljón bíla.

Þegar þetta er skrifað hafa hlutabréf Tesla hækkað um 2,5% í viðskiptum dagsins. Það sem af er ári hafa bréf félagsins hækkað um rúmlega 350%. Markaðsvirði Tesla er um 403 milljarðar Bandaríkjadala og er félagið meira en tvöfalt verðmætara en næst verðmætasti bílaframleiðandi heims, Toyota.