Tryggingamiðstöðin (TM) hagnaðist um 2.638 milljónir króna í fyrra. Þetta er 800 milljónum krónum minni hagnaður en árið 2011. Endurmat á eign TM í Samherja á árið 2011 skekkti uppgjörið á sínum tíma en við það jókst hagnaður félagsins um 1,8 milljarða króna. Fram kemur í uppgjöri TM að afkoma af vátryggingastarfsemi félagsins hafi verið sú besta í sögu félagsins. Þá kemur frma í uppgjörinu að af hagnaði ársins voru 1.167 milljónir króna vegna hækkunar á verðbréfaeign tryggingafélagsins.

Í uppgjörinu kemur fram að eigin iðgjöld félagsins námu 10.925 milljónum króna í fyrra. Það er 7% hækkun á milli ára. Fjárfestingatekjur félagsins voru jákvæðar sem nemur 2.078 millónum og voru heildartekjur 13.094 milljónir króna.

Heildareignir TM í lok síðasta árs námu 27.412 milljónum króna. Skuldir námu 17.180 milljónum og eigið féð því 10.231 milljónir. Eiginfjárhlutfall TM stóð um áramótin í 37,3%.

Þá segir í uppgjörinu að um 44% af fjárfestingaeignum TM eru í ríkisskuldabréfum og handbæru fé og 63% eignanna eru auðseljanlegar og geri það TM afar vel í stakk búið til að mæta skuldbindingum sínum. Gjaldþol í lok árs 2012 var 10.047 milljónir króna sem er tæplega fjórum sinnum lögbundið lágmarksgjaldþol.

Forstjórinn sáttur

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, er í uppgjörstilkynningu sáttur við afkomuna.

„Rekstur TM á árinu 2012 gekk vel líkt og undanfarin ár. Markmið um áframhaldandi umbætur í vátryggingastarfssemi náðust en eigin iðgjöld standa nú undir eigin tjónum og rekstrarkostnaði í öllum greinum, þar með talið ábyrgðartryggingum, en afkoma þeirra hafði verið óviðunandi í kjölfar efnahagshrunsins. Góð afkoma var einnig af fjárfestingastarfsemi félagsins og var hún í samræmi við áætlanir.“