*

mánudagur, 21. september 2020
Innlent 30. mars 2019 13:00

Afkoma versnar en kvóti hækkar

Verðþróun í kvótaleigu og varanlegum aflaheimildum í öfugu sambandi við þróun fiskverðs, tekna og afkomu í veiðum.

Kristján Torfi Einarsson
Þorskur er verðmætasta fisktegundin í íslenskum sjávarútvegi og mikil samkeppni er um þorskaflaheimildir.
None

Verðþróun bæði í leigu og kaupum á aflaheimildum var í góðu samræmi við framlegð veiðanna og fiskverð fyrstu árin eftir hrun. Hins vegar verður breyting þar á árið 2014 þegar verð á þorskkvóta, bæði til leigu og eigna, heldur áfram að  hækka á sama tíma og fiskverð á mörkuðum innanlands tekur að lækka. Árið 2012 voru rekstrartekjur í veiðum þær hæstu á þessari öld en síðan þá hefur tekjuþróunin verður á niðurleið allt til ársins 2017, en það ár höfðu tekjur í veiðum ekki verið lægri frá árinu 2008. Það skýtur óneitanlega skökku við að verð á bæði leigukvóta og varanlegum aflaheimildum hafi verið á uppleið á sama tíma og tekjur, afkoma og hráefnisverð var á niðurleið.

Verð aflaheimilda nær hámarki í byrjun árs 2017 en þá greiddu útgerðarmenn 230 krónur í leigu fyrir eitt kíló af þorski. Líklega hefur þó útgerðin ekki riðið feitum hesti frá þeim viðskiptum því samkvæmt meðalverði á fiskmörkuðum á sama tíma fengust 160 krónur fyrir kíló af slægðum þorski. Tapið hefur því numið 70 krónum á hvert kíló og átti þá útgerðin eftir að greiða laun og olíukostnað auk veiðigjalda sem þá námu 11 krónum á hvert kíló. 

Þessa verðþróun þar sem leiguverð nær hámarki á sama tíma og fiskverð er í lágmarki er ekki gott að skýra. Hún á sér þó hliðstæðu á árunum fyrir hrun þegar kvótaverð hækkaði stöðugt fram á síðasta dag þrátt fyrir hátt gengi krónunnar, erfið rekstrarskilyrði og samdrátt í úthlutun aflaheimilda. Eins og nú virðist verðmyndun aflaheimilda á þessum tíma hafa ráðist af einhverju öðru en afkomu í greininni. Síðasta stóra salan á aflaheimildum átti sér stað vorið 2007 þegar þorskkílóið fór  á 3.400 kr./kg. Fáeinum misserum síðar gat söluaðilinn í sömu viðskiptum keypt sig aftur inn í greinina á 1.400 kr./kg.  

Ákaflega erfitt er að nálgast upplýsingar um verðþróun aflaheimilda í opinberum gögnum, sem skýtur skökku við, því hér er á ferðinni einn stærsti eignaflokkurinn í íslenska hagkerfinu. Útlán íslenska bankakerfisins til fiskvinnslu og fiskveiða nema um 300 milljörðum króna og verðmæti aflamarks í þorski er í dag um 580 milljarðar króna, sem er töluvert meira en samanlagt markaðsvirði allra félaga í Kauphöll Íslands, að Marel undanskildu. 

Einu upplýsingarnar um verð aflaheimilda sem hægt er að nálgast opinberlega eru á vef Fiskistofu þar sem haldið er utan um dagleg leiguviðskipti með aflamark eftir tegundum. Þau gögn eru hins vegar hvorki aðgengileg né áreiðanleg, en vegna misvísandi skráninga á kvótafærslum milli skipa í sömu eigu, endurspegla gögnin illa raunveruleg kjör í viðskiptum ótengdra aðila. Reglulega eru gefnar út skýrslur um sjávarútveginn af greiningum bankanna en í þeim er þó hvergi að finna upplýsingar um kvótaverð og þróun þess.   

Vilhjálmur Ólafsson, eigandi og framkvæmdastjóri Aflmarks, tók saman gögn um verðþróun aflaheimilda fyrir Viðskiptablaðið. Hann er ekki aðeins miðlari á markaði með aflaheimildir og fiskiskip heldur gerir hann líka út eigin bát, Straumey ÍS. Spurður hvort verðþróun aflaheimilda í starfi sínu sem miðlari hafi verið í samræmi við afkomuna í rekstrinum sem útgerðarmaður segir Vilhjálmur að það samband ráði ekki úrslitum.  

„Það ræðst fyrst og fremst af kvótaeign hvort menn fá fyrirgreiðslu eða ekki. Bæði heyri ég þetta hjá viðskiptavinum mínum og hef reynt þetta á eigin skinni. Bankar hafa að undanförnu víða farið fram á að gert sé endurmat á lánshæfi og undanfarið hef ég nokkrum sinnum gert eignamat fyrir þá vegna slíkrar endurskoðunar. Sjálfur seldi ég kvótann minn í haust samhliða því sem ég keypti nýjan bát. Þegar bankinn minn til margra áratuga sá að ég átti ekki lengur kvóta, versnuðu lánakjör mín til muna – bæði var lánstíminn styttur og vextir hækkaðir. Engu máli skipti þótt afkoman væri betri og tekjumöguleikar meiri á nýja bátnum en þeim gamla. Það var ekki fyrr en ég keypti aftur kvóta að ég fékk aftur sömu kjör og ég hafði fyrir söluna,“ segir Vilhjálmur.

Stikkorð: Sjávarútvegur kvóti