Afkoma Vinnslustöðvarinnar á fjórða fjórðungi reyndist lítillega undir væntingum, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Tap félagsins á fjórðungnum nam 38 milljónum króna en greiningardeildin spáði 23 milljónum króna hagnaði.

Framlegð og hagnaður mun dragast verulega saman í ár, sé miðað við óbreyttar forsendur um gengi krónunnar, afurðaverð og núverandi útgefinn loðnukvóta, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Tekjurnar á fjórðungnum námu 840 milljónum króna, en greiningardeildin spáði 904 milljónum króna. Það er 21 milljón króna meira en sama tíma fyrir ári.

Framlegðin á fjórðungnum var 159 milljónir króna sem er í takti við væntingar greiningardeildarinnar sem spáði 164 milljón króna hagnaði.

EBITDA hlutfallið var 19%, en það var 18% á fjórða fjórðungi árið áður. Veiðar og vinnsla á síld gengu vel í haust og skýrir það að framlegðin hélst þokkalega há í annars erfiðu rekstrarumhverfi, segir greiningardeildin.

Frávik á spá greiningardeildar Kaupþings banka og það sem varð er að stærstum hluta vegna tapreksturs Hugins ehf. en Vinnslustöðin tapaði 30 milljónum á fjórðungnum vegna félagsins. Spá greiningardeildar hljóðaði þar upp á 25 milljón króna hagnaði.

Sölulægð á síld hafði töluverð áhrif á rekstur Hugins.