Afkoma VÍS var betri árið 2004 en dæmi eru um í sögu félagsins. Meginástæða þess er mikill hagnaður af fjármálastarfsemi, einkum vegna sölu eigna. Í vátryggingastarfsemi gætir áhrifa af mikilli lækkun iðgjalda sem leiddi til lakari afkomu af vátryggingarrekstri en árið 2003 þrátt fyrir tiltölulega hagstætt tjónaár. Þetta kom fram á aðalfundi VÍS í dag.

Hagnaður samstæðu VÍS eftir skatta var 2.525 milljónir. Þar af var 1.077 milljóna króna hagnaður af vátryggingarekstri og 2.092 milljóna króna hagnaður af fjármálarekstri. Heildareignir samstæðunnar 31. desember 2004 námu 36.382 milljónum króna og bókfært eigið fé var 7.940 milljónir króna. Sjá annars meðfylgjandi töflu með lykiltölum úr rekstri VÍS 2004.

Aðalfundurinn samþykkti að greiða hluthöfum 650 milljónir króna í arð sem er 100% arður af nafnverði hlutafjár. Þá ákvað stjórn VÍS að láta einnig starfsmennina njóta góðrar afkomu félagsins með því að greiða þeim 175 þúsund króna kaupauka.

Í stjórn VÍS voru kjörnir Þórólfur Gíslason, Óskar H. Gunnarsson, Ingólfur Ásgrímsson, Jón Eðvald Friðriksson, Hreiðar Már Sigurðsson, Lýður Guðmundsson og Erlendur Hjaltason. Nýir í stjórninni eru þeir Hreiðar Már, Lýður og Erlendur.

Árið 2004 bar það helst til tíðinda í starfseminni að VÍS keypti Vörð Vátryggingafélag hf., undirritaður var samstarfssamningur VÍS og KB banka um gagnkvæma kynningu og sölu á þjónustu og byrjað var að selja dýratryggingar VÍS í samstarfi við sænska félagið Agria. VÍS var afskráð í Kauphöll Íslands og undirbúningur hófst jafnframt að því að fá nýja fjárfesta til liðs við félagið. Afrakstur þess verkefnis var kaup fjárfestingafélagsins Meiðs á 16% eignarhlut í VÍS í febrúar 2005. Í byrjun febrúar 2005 keypti VÍS Lýsingu hf. og eru þau kaup í samræmi við yfirlýsta stefnu VÍS um að efla fjármálaþjónustu VÍS samstæðunnar.

Finnur Ingólfsson, forstjóri VÍS, sagði á aðalfundinum sagði einn af mögulegum vaxtarbroddum VÍS væri sá að teygja anga starfseminnar út fyrir landsteinana. Hann benti á gífurlega útrás íslenskra fyrirtækja undanfarin ár en jafnframt hefðu íslensk tryggingafélög ekki fylgt þessum fyrirtækjum út til að veita þeim tryggingaþjónustu þar. Þá vék Finnur í ræðu sinni að því að tryggingafélögum yrði vafalaust falin stærri hlutur í velferðarkerfinu á næstu árum, ekki síst á sviði heilbrigðis- og tryggingamála. VÍS væri að búa sig undir og skýra sýn sína á með hvaða hætti félagið ætti að vera í fararboddi við að uppfylla þarfir þeirra sem bíða eftir aðgerð á sjúkrahúsum og með hvaða hætti einstaklingar geti tryggt sig fyrir auknum hlut þeirra í heilbrigðisútgjöldum.