Rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar var neikvæð um 7,3 milljarða króna en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um nærri 8,0 milljarða á tímabilinu.

Í tilkynningu vegna árshlutauppgjörs borgarinnar segir að frávik frá áætlun í A-hlutanum skýrist einkum af því að útsvarstekjur voru um 3,1 milljarði yfir áætlun en launaútgjöld voru 2,6 milljörðum yfir fjárheimildum „sem að hluta til má rekja til aðgerða vegna Covid-19“.

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 4.754 milljónir eða um einum milljarði betri en áætlun gerði ráð.
Sé B-hluti borgarinnar tekinn með í myndina þá var afkoman jákvæð um 11,5 milljarða en áætlanir gerðu ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um nærri 2,3 milljarða. Niðurstaðan var því 13,8 milljörðum króna betri en borgin hafði gert ráð fyrir.

„Betri rekstrarniðurstöðu má einkum rekja til matsbreytingu fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum, áhrifa hækkaðs álverðs og tekjufærslu gengismunar vegna styrkingu krónunnar frá áramótum hjá Orkuveitu Reykjavíkur,“ segir í tilkynningunni. Orkuveitan skilaði 8,8 milljarða króna hagnaði á fyrri helmingi ársins.

Heildareignir A- og B-hluta samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í lok júní 745 milljörðum. Heildarskuldir og -skuldbindingar A- og B-hluta borgarinnar jukust úr 383 milljörðum í 397 milljarða frá áramótum. Eigið fé jókst einnig um 10,5 milljarða og nam 348 milljörðum í lok júní. Eiginfjárhlutfallið er nú 46,7% en var 47,0% um síðustu áramót.

„Útbreiðsla COVID-19 faraldursins og áhrif á heimsvísu eru fordæmalaus og hafa haft mikil fjárhagsleg áhrif á Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg hefur sett fram og endurskoðað með reglubundnum hætti sviðsmyndagreiningar um þróun efnahagsmála sem er liður í virkri áhættustýringu borgarinnar. Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er sterk og borgin hefur fjárhagslegan styrk til þess að taka á sig veruleg áföll vegna afleiðinga faraldursins,“ segir í tilkynningu borgarinnar.