*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 29. apríl 2021 13:48

Afkoman 14,7 milljörðum undir áætlun

A-hluti borgarinnar var rekinn með 5,8 milljarða króna tapi. Stöðugildum fjölgaði um 384 milli ára.

Ritstjórn
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri
Haraldur Guðjónsson

Reykjavíkurborg var rekin með tæplega 2,8 milljarða króna halla á síðasta ári en áætlanir gerðu ráð fyrir 12 milljarða króna afgangi. Rekstrarniðurstaða borgarinnar fyrir bæði A- og B-hluta var því 14,7 milljörðum króna lakari en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Þetta kemur fram í ársreikning Reykjavíkurborgar.

Í tilkynningu borgarinnar segir að helstu frávikin frá áætlun megi rekja til lægri tekna B-hluta fyrirtækja vegna Covid áhrifa, gjaldfærslu gengismunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur vegna veikingar krónunnar auk frávika í A-hluta.

Um 5,8 milljarða króna hallarekstur var á A-hluta borgarinnar, þ.e. starfsemi sem er að öllu leyti fjármögnuð með skatttekjum, en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir 1,5 milljarða afgangi. Rekstrarniðurstaða A-hluta var því 7,4 milljörðum króna lakari en í áætlunum. 

Í fréttatilkynningu segir að rekstrarniðurstaða A-hluta skýrist einkum af 2,7 milljarða króna lægri skatttekjum en áætlanir gerðu ráð fyrir. Tekjur af sölu byggingarréttar voru einnig 3,2 milljörðum króna undir áætlun. Launakostnaður var 1,7 milljörðum króna yfir fjárheimildum og annar rekstrarkostnaður 1,2 milljörðum króna yfir áætlun. Fjöldi stöðugilda í A-hluta var 7.783 að meðaltali á síðasta ári og fjölgaði um 384 milli ára. 

Dagur segir Græna planið leiðina út úr samdrættinum 

Í tilkynningu borgarinnar segir að erfitt sé að meta áhrif á rekstur og efnahag borgarinnar með áreiðanlegum hætti fram í tímann, þar sem óljóst er hversu lengi ástandið varir. Áætlanir stjórnvalda um bólusetningar gefi þó tilefni til bjartsýni á að unnt verði að ráða niðurlögum faraldursins hér á landi á þessu ári. 

 „Reykjavíkurborg hefur sett fram öfluga endurreisnaráætlun, Græna planið, til að mæta samdrættinum vegna COVID-19. Það er okkar leið til að snúa vörn í sókn. Borgin stendur sem betur fer vel að vígi til að glíma við efnahagskreppuna en óvissan er engu að síður töluverð. Við sjáum nú vonandi fram á bjartari tíma og að hjólin fari að snúast af fullum krafti,“ er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.