Rekstrarafkoma ríkissjóðs (A-hluta) var neikvæð um 51,3 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 15,9 milljarða lakari afkomu. Skatttekjur og tryggingagjöld hækka um ríflega 9% milli ára og gjöld hækka um 20%.

„Aukning tekna milli ára skýrist að stórum hluta af frestununum skattgreiðslna og er raunveruleg hækkun minni. Aukningu gjalda má einkum rekja til aðgerða sem ráðist hefur verið í til að mæta áhrifum Covid-19,“ segir í tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Tekjur af sköttum og tryggingagjöldum voru 190 milljarða króna en skatttekjur voru um 5% yfir áætlun. Stærstu frávikin eru í tekjuskatti einstaklinga sem er 5,1 milljarði króna hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Virðisaukaskattur nam 59,2 milljörðum króna og hækkaði um 12% milli ára.

Gjöld fyrir fjármagnsliði eru 240 milljarðar króna sem er aukning um 40 milljarða eða 20% frá fyrra ári. „Það er að mestu vegna tilfærslugjalda sem leiðir af áhrifum Covid-19, s.s. vegna vinnumarkaðsmála,“ segir í tilkynningu. Laun og launatengd gjöld A-hluta ríkissjóðs námu 69 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins samanborið við rúma 60 milljarða á sama tíma í fyrra.

Nettó staða langtímalána nam alls 1.051 milljörðum króna í lok mars og hækkaði um 145 milljarða frá árslokum 2020. Þar af var útgáfa á skuldabréfum í evrum í janúar fyrir 116 milljarða króna. Handbært fé í lok mars var 497 milljarðar króna.